Sátt eftir skilnað – í Hveragerði

Námskeið sem mikið hefur verið spurt um:  „Sátt eftir skilnað“  verður haldið í Hveragerði,  – laugardaginn 10. júní 2017.

Námskeiðið er,  að þessu sinni,   fyrir konur  (held sér námskeið fyrir karla síðar ef næg þátttaka fæst)  sem vilja ná sátt í lífinu eftir skilnað.

Staðsetning: Þelamörk 46  Hveragerði.

Leiðbeinandi:  Jóhanna Magnúsdóttir,  guðfræðingur/prestur, kennari og ráðgjafi.

Tímasetning:   10. júní 2017,   kl. 9:30 – 16:00   (laugardagur)  Fyrirlestrar og umræður.

Einnig fylgja námskeiðinu   4 skipti í eftirfylgni:   tvö skipti í júní og tvö í ágúst – væntanlega þriðjudaga kl. 19:30 – 21:00

Hámarksfjöldi er 10 konur.

Verð fyrir námskeiðið  er 29.000.-    (veitingar, þ.m.t. hádegismatur, er innifalið).

Skráning fer fram með því að senda tölvupóst á johanna.magnusdottir@gmail.com

Staðfestingargjald 5.900.-  þarf að greiða fyrir  30. maí nk.   Þær sem greiða námskeiðið að fullu fyrir þann tíma fá afslátt og borga 25.000.-  kr.
Reikningsnúmer og nánari upplýsingar koma í svarpósti.

Skráning:  johanna.magnusdottir@gmail.com

Markmið:

Að skilja hvað gerðist – og sáttari og glaðari þú – við bæði hið utanaðkomandi og sjálfa þig! 

Ath!  Þó að námskeiðið sé haldið í Hveragerði – þá er stutt að aka úr höfuðborginni,  ca. 30-40 mínútur og svo gengur líka strætó!

 

Það tekur tíma að jafna sig eftir hjartaáfall …

Hjartaáfall er í daglegu tali eitthvað sem er líkamlegt. En skilnaður er vissulega hjartaáfall, – það er talað um að vera „heartbroken“ – eða með brotið hjarta. –

Það myndi engin/n ætla þeim sem hefur fengið (líkamlegt) hjartaáfall að fara bara strax af stað, í vinnu eða sinna hverju því sem á að gera).  Það þarf viðurkenningu á áfallinu.  Það þarf líka að skoða hvað olli því, – yfirleitt er aðdragandinn langur, en hann er lúmskur.

Svo gerist það, – og þá þarf að hlúa að hinu brotna hjarta, það þarf að gera ýmsar „aðgerðir“ …

Lengri ætla ég ekki að hafa þennan pistil, en hann er helst til að vekja athygli á hversu mikil áhrif skilnaður hefur, eða getur haft.

Skilnaður er hjartaáfall.  Það er eins eðlilegt að leita sér hjálpar við líkamlegt hjartaáfall eins og andlegt. –  Það þarf pinku öðruvísi „tæki“ til að lækna hjartað – en eflaust margt líkt.

Hægt er að lesa um námskeiðið „Sátt eftir skilnað“  hér á síðunni, ef smellt er HÉR

candle-heart-hands

 

Sátt eftir skilnað – námskeið hefst laugardag 13. sept. nk.

Námskeiðið „Sátt eftir skilnað“  verður næst haldið 13. september nk.  Hafið samband á valkostur@gmail.com eða 8956119 –  Staðsetning: Reykjavík, en nákvæm staðsetning auglýst síðar.  9:00 – 15:00 og fjögur kvöld í eftirfylgni 90 mín í senn. –  Verð: 19.900.-   

Vegna fjölda fyrirspurna ætla ég að bjóða upp á námskeiðið Sátt eftir skilnað. 

Við skilnað (eða um leið og hugmyndin um skilnað lætur á sér kræla) hefst sorgarferli, draumurinn um hjónabandið/sambandið rættist ekki og margar vondar tilfinningar gera vart við sig, doði, vonbrigði, reiði, höfnunartilfinning, óvissa, svik, missir, einmanaleiki. Sagan átti ekki að enda svona – við upplifum kannski að við höfum misst stjórn á söguþræðinum, hvort sem að það vorum við sem tókum ákvörðunina um að skilja eða makinn.

Fyrir marga vaknar spurningin um hvað tekur við þegar þú ert ekki hluti af pari lengur, hvað breytist o.s.frv.

Skilnaður er þó ekki endalok alls, hann er endir á einum vegi en annar og nýr tekur við. Skilnaður var e.t.v. ekki okkar val, en það þýðir ekki að við höfum ekki enn úr mörgu að velja um leið og við göngum hinn nýja veg.

Það er mikilvægt að fá stuðning þegar við göngum í gegnum skilnaðarferlið, það er líka mikilvægt að skilja af hverju við skildum, skilja orsakirnar – til að við göngum ekki bara í hring og förum sama veginn aftur. Nýtum okkur sorgarferlið til að ná stórum þroskaskrefum fram á við, og stefnan er frá sorg til sáttar.

Námskeiðið hefst 13. september 9:00 – 15:00 og að auki er fjögurra kvölda eftirfylgni í hópum, einn og hálfur tími í senn, en hópurinn kemur sér saman um tíma sem hentar í samráði við leiðbeinanda.

VERÐ  19.900.-   Ef að greitt er að fullu fyrir 7. september er gefinn 2000. – króna afsláttur og kostar þá námskeiðið 17.900.-    (Hámark 10 konur á námskeiði) 

Innifalin er morgunhressing, kaldir og heitir drykkir, en hádegisverður verður snæddur á nærliggjandi veitingastað, – og greiðir þar hver fyrir sig.

Fjöldi þátttakenda eru 10 konur hámark.

Skráning er hjá Jóhönnu Magnúsdóttur –  valkostur@gmail.com  eða s. 8956119

Ath! .. þetta námskeið er ætlað konum, en ef ég fæ fyrirspurnir frá körlum er velkomið að bjóða upp á námskeið fyrir karla, hef haldið  það einu sinni, með góðum árangri, – en síðast þegar það var auglýst náðist ekki nægileg þátttaka, en aðeins komu tvær skráningar. Við þær hefur bæst ein fyrirspurn, – en endilega sendið mér póst karlar, ef áhugi er fyrir hendi!

Hér má lesa tvær umsagnir um námskeiðið:

„Í september 2012 stóð ég frammi fyrir þeirri ákvörðun að skilja við manninn minn eftir 14 ára samband. Allt í einu var ég orðin einstæð þriggja barna móðir og fannst ég alein. Vinkona mín benti mér þá á Lausnina og þar fékk ég upplýsingar um að innan skamms hæfist námskeið fyrir konur sem stæðu í sömu sporum og ég. Ég var niðurbrotin og ringluð og fannst ég virkilega þurfa að byggja mig upp. Þess vegna ákvað ég að skrá mig á þetta námskeið og sé sko alls ekki eftir því. Leiðbeinandinn á námskeiðinu, miðlaði af sinni reynslu og hvatti okkur endalaust áfram. Hún fékk mig til þess að horfa öðruvísi á hlutina og gaf mér von um að það væri betra líf handan við hornið ég þyrfti bara að trúa því sjálf. Á námskeiðinu kynntist ég frábærum konum og eftir að námskeiðinu lauk héldum við sjálfar áfram að hittast og hittumst einu sinni í mánuði. Þetta veitir mér mikinn stuðning og það er gott að finna að maður stendur ekki einn. Mér finnst þetta námskeið hafa hjálpað mér mjög mikið á þessum erfiðu tímamótum í lífi mínu og ég stend tvímælalaust uppi sem sterkari kona. Ég hvet því alla sem eru að ganga í gegnum skilnað eða hafa gengið í gegnum skilnað að fara á þetta námskeið vegna þess að mun hjálpa ykkur að komast yfir þennan erfiða kafla í lífi ykkar.“

35 ára kona

—————————————————————————————

„Mesta áfall í lífi mínu var að skilja. Mér fannst mér hafa mistekist, þetta var ekki ætlunin, ég var uppfull af sorg og skömm og föst þar. Ég hafði engar aðferðir og engin tæki til að vinna úr þessu áfalli. Á námskeiðinu Lausn eftir skilnað með Jóhönnu Magnúsdóttur kom léttirinn, því ég var ekki ein og til var leið til úrvinnslu. Lausn eftir skilnað er réttnefni námskeiðsins, það var mér ómetanlegt á leið minni til betra lífs.“

44 ára kona

Hér er svo almenn umsögn

Jóhanna er snillingur, hjartahlý og hefur lag á að koma góðu orði á hlutina. Hún hefur hjálpað mér mikið, bæði í eigin persónu og í gegnum sína fjölmörgu pistla. Hún hefur upplifað margt og á auðvelt með að miðla sinni reynslu og hjálpa öðrum. Ef eitthvað er að trufla ykkur í þessu daglega mæli ég eindregið með þessari mætu konu.

Hanna María Ásgrímsdóttir

Sjá einnig umfjöllun á Mbl.is HÉRNA

Pantanir og fyrirspurnir:  valkostur@gmail.com   eða 8956119 (ath! ég verð í Danmörku frá 28. ágúst – 6. september svo betra er að hafa samband á þeim tíma í gegnum tölvupóst.  🙂 )

Pistlana mína og um mig er einnig hægt að lesa á johannamagnusdottir.com

„Druslan“ og „Sú klikkaða“ …

Á námskeiðunum hafa þessi heiti komið upp aftur og aftur.   Þetta eru heiti á núverandi og fyrrverandi.

Fyrrverandi er þá „sú klikkaða“  og  núverandi er þá „druslan“ …

Reyndar heyri ég oftar talað um „drusluna“ .. á námskeiðunum,  þar sem þarna koma fráskildar konur sem oft hafa lent í því að maðurinn þeirra,  eða þáverandi maður,  hefur farið að vera með annarri konu,  sem flokkast þá undir „drusluna“…    þessi kona hefur ekkert endilega komið upp á milli í hjónabandinu, heldur  getur líka verið kona sem maðurinn hefur hitt eftir skilnað,  en henni er samt fundið allt til foráttu og fer þá enn og aftur í þennan drusluflokk.

Reiðin verður að koma einhvern veginn út,  reiðin vegna trúnaðarbrests,  höfnunar o.fl.  og oftar beinist hún að nýju konunni heldur en að eiginmanninum sjálfum,  þeim sem hafði heitið trúnaði.

„Hvernig getur hún“ .. o.s.frv. –    Maðurinn er jafnvel álitinn saklaust fórnarlamb „druslunnar“ sem vinnur að því að tæla menn frá konum. –

Auðvitað eru til einhverjar konur þarna úti sem hafa ekki siðferðisstandard hærri en það að leita í kvænta menn – en það er ekki reglan.

Ef að maðurinn er farinn að leita út fyrir hjónaband/samband þá er eitthvað að hjá honum eða að sambandinu. –  Það er líka hægt að halda fram hjá með,  eða fara að horfa til flösku, vinnu eða rjómatertu.  Sumir borða til að forðast það að takast á við það sem raunverulega er að,  aðrir leita í meiri vinnu, enn aðrir í  aðrar manneskjur.   Auðvitað er samlíkingin einföldun,  en það getur samt verið af svipuðum ástæðum.

Fólk talar ekki saman um það sem raunverulega er að,  það talar saman en hlustar aðeins á sjálft sig en ekki makann,  vill ekki skilja hinn aðilann eða kennir alltaf öðrum um eigin ófarnað.   Það er gjörsamlega út úr myndinni að líta í eigin barm og skoða hvort það er eitthvað í eigin fari eða samskiptum sem mætti skoða.

Þegar maðurinn fer – og eiginkonan reiðist og lætur heyra í sér  vegna áðurnefnds;  höfnunar,  trúnaðarbrests eða af hvaða ástæðum sem það er eða maðurinn stendur sig ekki gagnvart börnum jafnvel.  Þá fær hún stimpilinn (hjá honum og jafnvel nýju konunni: „sú klikkaða“..)     Þetta er jafn „réttlátur“  titill og „druslan.“

Það skilur enginn stöðu hinna fyrr en þú stendur í sporum þeirra.

Stundum verður fólk bara ástfangið á miðjum aldri – finnur eitthvað sem það hafði ekki fundið í sambandinu sínu sem byrjaði jafnvel á unglingsaldri,  og hvað á þá að gera? –

Ef fólk er í sambandi eða hjónabandi fyrir þá  þarf að sjálfsögðu að spyrja sig hvað sé að gerast og koma af heiðarleika fram við maka sinn og láta vita ef þú vilt út úr því sambandi,  vegna hins nýja sem er að kvikna.   Það er vont,  en eftir því sem nýja sambandið gengur lengra sem hliðarspor, þess verra fyrir þann sem þú ert í trúnaðarsambandi við.    Þið voruð búin að lofa hvort öðru,  jafnvel heita fyrir augliti Guðs.

Það þarf að spyrja sig: „Hvað vil ég raunverulega?“ ..

Í sumum tilfellum er fólk skilið,  og einhver tími liðinn.   Annar aðilinn finnur nýjan maka og þá blossar upp afbrýðisemi og eflaust einhvers konar eignarhaldstilfinning.  „Hann er MINN“ eða „Hún er MÍN“..   það er ekki ást,  það eg eigingirni.   Ást hefur aðeins eina hlið,  það er ekki hatur í ástinni eða eigingirni.

Dóttir mín skrifaði:

„At elske en så højt, at med et smil lader du ham gå, at med et knus slipper du ham fri og med latter selv går videre….“

eða

„Að elska einhvern svo mikið,  að með brosi lætur þú hann fara,  að með faðmlagi sleppir þú honum frjálsum og hlæjandi heldur þú svo sjálf áfram göngunni.. “

Ef það eru börn í spilinu er vont að hafa reiðina sem fókuspunkt,  hvort sem það er á fyrrverandi mann/konu eða þann maka sem hann/hún hefur valið sér. –

Hér er talað út frá konum að mestu leyti,  enda ég að mestu leyti vön að hafa námskeið fyrir konur,  en sama gildir um karlmenn –  og ég prófaði eitt námskeið með karlmönnum og að sjálfsögðu eru þeir að ganga í gegnum sömu eða svipaðar tilfinningar eins og konurnar.

Það mikilvæga er þegar upp er staðið að stilla fókusinn á sjálfa/n sig,  ekki á fyrrverandi eða „drusluna“ hans,  eða kannski gera sér grein fyrir því að þú gætir orðið „druslan“ í lífi einhverrar annarrar konu,  þegar að fyrrverandi maðurinn hennar hittir þig? –  Og þá skilur þú ekkert í „þessari klikk“  hvernig hún lætur,  þú hefur bara drýgt þá „synd“  að verða ástfangin af manni og ert að gera þitt besta.   Ert jafnvel að þjóna börnunum hans (og hennar)  og fórna ýmsu fyrir þau,  tíma,  vinnu, þreki.

Stjúpmóðurhlutverk „druslunnar“  er yfirleitt mjög vanþakklátt hlutverk.

En hvað stendur eftir á milli „Druslunnar“ og „hinnar klikkuðu“ –  væri ekki nær að þessar konur mættust og áttuðu sig á því að þær eru báðar ágætar,  kannski bara líkar,  en standa bara í sitt hvorum fótsporunum.   Gætu þær mögulega sett sig í spor hinnar og gæti það verið það besta fyrir alla,  tala nú ekki um ef það eru börn í spilinu sem þurfa að upplifa spennu,  og heyra stundum á tal kvennanna? –

Það er verið að tala í síma,  spjalla við vinkonurnar við eldhúsborðið o.s.frv. –

Kannski er þessi „drusla“  bara væn kona sem vill gera vel og kannski er þessi „klikkaða“ bara kona sem vill gera vel.   Samskiptin eru bara vandamál,  því að á milli þeirra stendur maður sem gerir hlutina flókna.

Þetta er ekki leikur – ekki keppni – þetta er lífið.  Við þroskumst stundum í sundur,  í vinnu með okkur sjálf getum við oft náð að tengjast á ný,  nú eða förum lengra í sundur.

Ég mæli a.m.k. með því að fara í sjálfsskoðun og spyrja sig;  „Hvað vil ég“ – áður en farið er að teygja sig í flöskuna,  kökuna nú eða aðra manneskju áður en hin raunverulega óánægja er greind. –

Hvað er að?

Er spennufíkn í gangi? –  Vilja menn halda öllu góðu heima,  grilla og chilla m/ þessari „gömlu“ .. og upplifa svo eitthvað spennuævintýri með þessari „nýju“ .. og hvað ef svo líður tíminn og þeir skipta út – og breytta engu að öðru leyti – fara ekkert í rót vandans,  endurtekur sagan sig ekki bara? –

Þá situr maðurinn uppi með að „druslan“ er orðin „sú klikkaða“….  

Elskaðu sjálfa þig systir og byggðu upp sjálfstraustið,  njóttu þín, vertu falleg að innan sem utan,  dansaðu, vertu glöð yfir því sem þú hefur.

Ekki vera of upptekin af þínum fyrrverandi og hans nýja lífi,  það tætir það bara upp, sérstaklega ef þú ferð í vorkunnsemisgírinn.

„Hann gefur henni pels en ég á bara poplínkápu“ ..  blah …

Ber þinn fyrrverandi ábyrgð á þinni hamingju eða gerir þú það sjálf?

Um leið og þú sleppir tökunum af þeirri hugsun að hann geri það getur þú farið að lifa þínu lífi og komist áfram,  annars spólar þú bara í sömu förunum.

Stilltu fókusinn á þig og á þína hamingju og laðaðu þannig að þér hið góða í lífinu. 

tumblr_m8thiuIgfe1r9a1o8o1_500

Næsta námskeið: „Lausn eftir skilnað“  átti að hefjast 2. febrúar,  en vegna fjölskylduaðstæðna minna mun ég fresta því um óákveðinn tíma.

Á meðan hafðu það í huga:

Við sklnað hefst sorgarferli, það má syrgja drauminn og væntingarnar sem dóu.

Fókuseraðu á sjálfa/n þig og að gera eitthvað fyrir þig,  ekki hvað makinn fyrrv. á að gera fyrir þig og hamingju þína.

Farðu í sjálfsvinnu og lærðu að þurfa sem minnst að „betla“ – þ.e.a.s. elska þú sjálfa þig, virtu, þakkaðu, fyrirgefðu, samþykktu – gefðu þér blóm og gjafir og talaðu fallega við þig.

Hafðu þetta „clean cut“ – samskiptin eins lítil og hægt er í ákveðinn tíma,  aðeins praktísk mál rædd vegna barna o.s.frv.   Ekki vera að finna upp ástæður til að tala eða hittast,  það lengir sorgarferlið og gefur oft væntingar sem yfirleitt bresta.

Trúðu því að það sé „Líf eftir skilnað“ … 

Slepptu,  trúðu og leyfðu.

Vertu ÞÚ  og njóttu ÞÍN.

Að játast sjálfum sér …

Titillinn er vísun í hugmynd sem kviknaði hjá mér við undirbúning námskeiðisins “Lausn eftir skilnað” –  Ég trúi því nefnilega að ein af ástæðunum fyrir því að samband/hjónaband renni út í sandinn sé að við höfum aldrei trúlofast né gefist sjálfum okkur.   Það sé grunnforsenda góðs sambands,  að byrja á því að elska sjálfa/n sig,  virða og treysta. – 

Það er pinku merkilegt að við séum tilbúin að lýsa yfir ást, trausti og virðingu við aðra manneskju – e.t.v. fyrir augliti Guðs, en það er það sem gert er í kirkjunni, – en eiga mjög erfitt með að gefast okkur sjálfum. –

Í hjónavígslu spyr prestur brúðhjónin hvort þau vilji vera hvort öðru trú. –

Hvernig liti þetta út ef við værum að giftast eða gefast sjálfum okkur? –
Nú spyr ég þig:  Er það einlægur ásetningur þinn að ganga að eiga þig?  –  Vilt þú með Guðs hjálp reynast þér trú/r, elska þig og virða í hverjum þeim kjörum sem Guð lætur þér að höndum bera? –

Til að taka þetta alla leið, – þá gætir þú dregið þér hring á hönd til vitnisburðar um ást og trúfesti þína við sjálfa/n þig. – ;-)

Þetta er ekki sjálfs-elska, þessi sem við köllum eigingirni,  þetta er hin raunverulega elska,  því að eftir því sem við náum að þykja vænna um okkur sjálf, – hafa meira sjálfstraust og sjálfsvirðingu verðum við færari um að gefa af okkur og elska, virða og treysta öðrum. –

Lélegt sjálfstraust og léleg sjálfsvirðing skapar óöryggi gagnvart okkur sjálfum OG gagnvart maka okkar eða þeim sem við erum í samskipti við og veikir því sambandið. –

Alveg eins og við viljum að maki okkar sé heilbrigður og hamingjsamur – vill hann að við séum heilbrigð og hamingjusöm.  Það er líka miklu auðveldara að óska öðrum hamingju þegar við erum sjálf hamingjusöm.

Þetta gildir líka um samskipti foreldra og barna.  Alveg eins og við viljum að börnin séu heilbrigð og hamingjusöm,  óska þau  einskis fremur foreldrum sínum til handa.  – Það er niðurstaða mín eftir að hafa tekið viðtöl við hóp unglinga hvers þau óskuðu sér. –  Bein tilvitnun í eina 15 ára stelpu, sem foreldrar sendu í viðtal til mín vegna þess að henni gekk illa í skóla

“Ég vildi bara óska þess að mamma væri glaðari” –

En hvernig verðum við glöð og hamingjusöm? –  Ég er oft spurð um “tæki” til þess og það var bara á þessu ári sem ég komst að þessari merku niðurstöðu að hamingjan dregur vagninn en ekki vagninn hamingjuna.

– Þ.e.a.s. við verðum að koma okkur í “gírinn”  …byrjunin er að:

elska sig – virða sig – treysta sér – samþykkja sig – fyrirgefa sér og síðast en ekki síst,  þakka fyrir! – (okkur þykir stundum að við höfum ekki neitt til að þakka fyrir, aðstæður okkar séu ómögulegar,  “allt í volli” – en þá þurfum við að líta betur og veita því athygli sem er þakkarvert og ég lofa því að við getum alltaf fundið eitthvað og við byggjum svo ofan á það). –

En ég var að tala um tæki, – sjálf nota ég hugleiðslu og kenni, en tæki sem allir geta notað eru það sem við köllum “daglegar staðhæfingar” – og þær virka! –  Já,  auðvitað virka þær og þú veist það því þú ferð með þær daglega nú þegar.  Því miður eru þær oft neikvæðar.  – “Hvað þykist þú vera?” – “Þú ert nú meira fíflið” –  “Mikið er nú ömurlegt veður” –  “Ég er að þrauka lífið” – blablabla… alls konar neikvæðar staðhæfingar förum við með á hverjum degi, – kannski ekki alltaf upphátt,  en svona undir niðri.  Stundum förum við í vorkunnargírinn, “Alltaf er ég að gera allt fyrir alla og enginn að gera neitt fyrir mig” .. “Af hverju hringir enginn?”  “Af hverju er maðurinn minn svona leiðinlegur og gerir mig ekki hamingjusama?” ..

Ég ætla ekki að halda áfram. – En síðasta setningin skiptir máli, þ.e.a.s. þessi setning um að ætlast til að aðrir hvort sem það er maki eða vinir geri okkur hamingjusöm.  Enn og aftur komum við að því að við VERÐUM að byrja á okkur sjálfum. –  Hamingjan kemur innan frá – fyrst og fremst,  umhverfið hjálpar til,  það er óþarfi að neita því,  – en t.d. manneskja sem virðir sig og elskar, hún lætur ekki bjóða sér neitt bull og óvirðingu og setur mörk.

En nú er komið að jákvæðu staðhæfingunum,  staðhæfingunum til að geta farið að elska sig og virða. – Það þarf að endurforrita, – taka út það gamla sem hefur virkað til niðurrifs og e.t.v. einstaka vírusa sem hafa læðst inn á harða diskinn! –  Við þurfum að fara að tileinka okkur það sem við höfum lesið í öllum sjálfshjálparbókunum og smellum upp á vegginn okkar á Facebook.  Því að það er sama hvað við lesum mikið – ef við notum það ekki,  er það svipað og að mæta í líkamsræktarsal og horfa bara á tækin og vera svo þvílíkt stolt af okkur að mæta í ræktina.

– Hugrækt vinnur eins.

(já frá þessum tímapunkti ef þú ert ekki þegar byrjuð/byrjaður,  getur þú valið að taka yfir hugsun þína og breyta henni frá neikvæðri yfir í jákvæða). –  Þú þarft að sortéra frá það sem er uppbyggilegt og það sem er niðurbrjótandi og setja það síðarnefnda í svartan plastpoka og fara með það í  Sorpu eða endurvinnsluna. – Tíminn er kominn til að endurbyggja sjálfa/n sig.

Endurtaktu jákvæðar staðhæfingar, aftur og aftur og gerðu þær að þínum sannleika. –  Dropinn holar steininn. –

Hættu viðnáminu, líka gagnvart öðrum – hættum að vera dómhörð í eigin garð og annarra.  Samhygð er mesti þroskinn. Samhugur með sjálfum sér og öðrum.  Það tekur svaka orku að vera sífellt neikvæður í eigin garð og annarra og það er svo mikil hindrun í því að vera hamingusöm og að elska okkur! –

Kannski ekki skrítið að mörgum finnist þau þreytt, úrvinda og tóm.  Það er svo mikil orka sem fer í það að elska okkur EKKI! ..

Nú er tíminn til að setja orkuna í það að elska og leyfa kærleikanum – ástinni –  að flæða. –

Við þurfum að vera þolinmóð,  þó þetta komi ekki eins og barbabrella.  Við erum búin að taka okkar tíma í að elska okkur ekki og því getur það tekið  tíma að snúa við ferlinu. –

Leyfum okkur að hugleiða jákvæðu staðhæfingarnar og upplifa þær. – En veitum því líka athygli þegar við förum að finna ástæður til að trúa þeim ekki. –  (Er þetta fíflalegt? Kjánalegt? Væmið?)

Er ekki allt í lagi að nota ný “meðul” ef að þau leiða til hamingju þinnar? –  Við megum ekki berja okkur niður þegar við förum að vinna að gleðinni, hamingjunni – elskunni í eigin garð. –

Hið náttúrulega og eðlilega er að elska sig. – Þannig vorum við sem börn, en það gerðist bara eitthvað á leiðinni.  Einhver sagði eitthvað sem varð til þess að við fórum að efast að við værum ekki elsku verð.  –  Stefnan er að komast í okkar eðlilega ástand. – Ástand þar sem við dæmum okkur ekki,  ekki frekar en barnið sem liggur í vöggunni og virðir fyrir sér fingur sinna.  – Það er ekki að dæma þá vonda eða góða,  bara að virða þá fyrir sér því þeir eru þarna. –

(Sjálfs)hatur og niðurbrot getur verið hið algenga þó það sé ónáttúrulegt  – en ástin  er hið eðlilega eða náttúrulega ástand.

Eftirfarandi eru svo staðhæfingar sem þarf að hafa yfir á hverjum degi til að koma sér í eðlilegt/náttúrulegt ástand. – (mæli með því að prenta  þessar staðhæfingar út og lesa þær upphátt fyrir sjálfa/n sig á hverjum morgni og helst kvöldi líka, en bara ef þú vilt!) .

1. Ég samþykki mig af fyllstu einlægni
2. Ég fyrirgef mér fyrir mistök mín og neikvæðar hugsanir í fortíð, nútíð og framtíð
3. Ég elska mig skilyrðislaust
4. Ég elska sál mína
5. Ég elska huga minn
6. Ég elska líkama minn
7. Ég samþykki að nota mistök mín og óhöpp sem dýrmæt tækifæri til að læra
8. Ég geri mitt besta og mitt besta er nógu gott
9. Ég á skilið að vera hamingjusöm/hamingjusamur
10. Ég á allt gott skilið
11.  Ég á skilið að elska sjálfa/n mig
12. Ég á skilið að þiggja ást frá öðrum
13. Ég er minn besti vinur/ mín besta vinkona
14.  Ég tek gagnrýni af æðruleysi og þakklæti
15. Ég er sjálfsörugg/ur og hef góða sjálfsvirðingu
16. Ég fagna því að vera einstök manneskja
17.  Ég geri það besta úr hverri stund og úr hverjum aðstæðum
18.  Ég treysti sjálfum/sjálfri mér
19.  Ég nýt þess að vera með sjálfum/sjálfri mér
20.  Ég tek ábyrgð á eigin líðan
21.  Ég er stolt/ur af sjálfri/sjálfum mér
22.  Ég er siguvegari
23.  Ég er stolt/ur af árangri  mínum í lífinu og líður vel með bæði það sem hefur gengið vel og illa.
24.  Ég er skemmtileg/ur og ég skemmti mér
25.  Ég er góð manneskja.

Hamingjan er lykilinn – og lykillinn er ekki einhvers staðar þarna úti eða í annarri manneskju,  – þú ert lykillinn. –

Þess vegna megum við ekki fókusera svona á að aðrir geri eitthvað fyrir okkar hamingju, – heldur taka ábyrgð á eigin hamingju og eigin lífi. –

“Success is not the key to happiness. Happiness is the key to success. If you love what you are doing, you will be successful.”
– Albert Schweitzer

Þessi pistill er blanda af eigin hugleiðingum og því sem ég hef pikkað upp af netinu,  listinn er t.d. fenginn að láni, með smá breytingum – en öll erum við í þessu saman, og hamingja mín er hamingja þín.  – Svo skínum fyrir hvert annað! –

Því spyr ég aftur:

–  Vilt þú með Guðs hjálp reynast þér trú/r, elska þig og virða í hverjum þeim kjörum sem Guð lætur þér að höndum bera? –

Skilnaður – sjálfsvinna

Eftirfarandi er grein sem ég þýddi lauslega, en hún er eftir Robert Holden,  hægt er að smella á upprunalegu greinina í lok þessarar með því að smella á nafn Holden´s. –

10 aðferðir að ánægjulegra lífi

Hvernig skilgreinir þú hamingjusamt líf? – Ertu að lifa því?  Hugsaðu þig vel um, vegna þess að þín skilgreining á hamingjunni mun hafa áhrif á allar aðrar mikilvægar ákvarðanir lífs þíns.  Til dæmis, ef að þú heldur að hamingjan sé eitthvað sem þú sækir hið ytra, gerir þú hamingjuna að leit, hún verður einhvers konar fengur, eða verðlaun sem þú verður að vinna þér inn fyrir.

Ef þú, aftur á móti, gerir þér grein fyrir því að hamingjan er innra með þér, verður hamingjan áttaviti, kennari og gerir þér kleift að lifa bestu útgáfuna af þínu lífi.

Samþykktu þig

Án sáttar við þig sjálfa/n,  “sjálfs-samþykkis” takmarkar þú eða hindrar hversu mikla hamingju, frjósemi, ást, kærleika og árangur þú munt upp skera.

Kraftaverkið við að samþykkja sjálfa/n sig er að þú ert viljug/ur að samþykkja hamingjuna sem er nú þegar innra með þér, þú munt byrja að upplifa meiri hamingju í kringum þig. –

Fylgdu gleði þinni

Það er mikill munur á því að leita að hamingjunni eða að fylgja gleði sinni.  Að fylgja gleði sinni er að fylgja löngunum og ástríðum hjartans,  að taka eftir hver þinn sanni innblástur er og þekkja tilgang sálar þinnar.

Góður upphafspunktur er að íhuga spurninguna:  “Hvenær er ég glöðust/glaðastur?”   – Mér finnst gaman að segja “Hvað lætur mig “búbbla?”

Veldu hamingju

Taktu ákvörðun um hversu góður dagurinn muni verða, hversu gott árið verður, hversu gott líf þitt verður.  Ertu ánægð/ur með ákvörðunina?   Settu fram jákvæða áætlun á þessari stundu, leyfðu deginum að verða enn ánægjulegri en þú hélst að hann yrði.

Frelsaðu hamingjuna

Mörg hamingjustundin fer fram hjá okkur, vegna þess að hún kostar ekkert.  Ef þú heldur að peningar muni kaupa hamingjuna, munt þú halda áfram að versla restina af lífinu án þess að að verða fyllilega fullnægð/ur.  Ef þú vilt njóta ókeypis hamingju, gerðu þá lista yfir allt í lífinu þínu sem kostar ekki peninga og er reyndar ekki hægt að meta til fjár.

Eins og hlátur, vinátta, hugleiðsla, loftið sem við öndum, velvild og stjörnuskin næturinnar.

Hvernig verðmetum við sólarupprásina eða sólarlagið?

eða “How do you rate the morning sun?” ..

Elskaðu

Til að upplifa hamingju, vertu sú elskulegasta manneskja sem þú getur verið.  Fólk sem gefur sinn besta tíma, orku, og athygli í mikilvægustu sambönd sín upplifir meiri hamingju.  Hættu að vera svona upptekin/n, og hugsaðu um hverjum þú ættir að verja meiri tíma með, virða meira og skemmta þér og hafa gaman saman.

Fyrirgefðu NÚNA

Til að vera hamingjusöm þurfum við stundum að losa okkur við óskina um betri fortíð. Að lifa hamingjusöm til æviloka byrjar á fyrirgefningunni.  Þú getur ekki haldið í ergelsið og gremjuna í von um að vera hamingjusöm/samur.  Fyrirgefningin er gjöf sem þú gefur þér, því hún frelsar þig.

Settu þakklæti þitt í orð

Segðu upphátt frá þremur hlutum sem þú ert þakklát/ur fyrir.  Gerðu það NÚNA, áður en þú heldur áfram að lesa.

Stundum er talað um þakklætið sem stystu leið “shortcut” að hamingjunni. Þess meira þakklæti sem við finnum þess meiri hamingju upplifum við.

Varastu píslarvætti

Píslarvottar trúa að þeir verði að fórna sjálfum sér og hamingju sinni til að njóta hins góða í lífinu. Þegar þú ert orðinn sannur píslarvottur tapar þú og allir aðrir í kringum þig. Sýndu þér velvild.  Lífið verður alltaf betra þegar þú ert betri við sjálfa/n þig.

Vertu í viðveru  (be present)

Að lifa í “ekki núinu”  er megin orsök óhamingju.  Á ensku hefur orðið  ”present”  þrjár meiningar:  “hér”, “nú” og “gjöf”.  Þess meira sem þú ert viðstödd/staddur á hverri stundu, þess meiri hamingju upplifir þú.

Hamingjan er þar sem ÞÚ ert.

Grein eftir Robert Holden – 10 leiðir að gleðilegra lífi,  í lauslegri þýðingu Jóhönnu Magnúsdóttur.

Aaaa-7

Skilnaður – Af hverju eru skilnaðir svo tíðir? – Kjartan Pálmason skrifar

Af hverju eru skilnaðir svo tíðir?

Í starfi mínu sem ráðgjafi fyrir einstaklinga sem eru að kljást við samskiptaerfiðleika, fíknir eða meðvirkni þá hefur það komið mér á óvart hversu margir einstaklingar sem leita til mín eiga í hjónabands erfiðleikum eða hafa nýlega farið í gegnum skilnað.  Eftir fjölda viðtala fór að birtast mér sameiginlegir orsakavaldar þess að fólk átti í sambands- og hjónaerfiðleikum.

Þar sem ég var að ljúka námi í HÍ ákvað ég að rannsaka enn frekar hvort eitthvað væri til í þeim hugmyndum sem voru að mótast í huga mér.

Skilnaðartíðni og afleiðingar

Skilnaði ber að taka mjög alvarlega.   Meðal skilnaðartíðni hér á landi frá árinu 1991 til 2012 er 32,42%  sem þýðir að einn af hverjum þremur sem gengur í hjónaband mun skilja.  Inni í þessum tölum eru ekki sambandsslit sem að öllum líkindum hækka kúrfuna til muna.   Lois Verbrugge og James House, báðir frá University of Michigan, hafa gert mjög áhugaverðar rannsóknir um afleiðingar skilnaða.  Rannsóknir þeirra sýna að aukning veikinda er 35% og meðalaldur styttist um fjögur ár.  Hin hliðin er sú að fólk sem er hamingjusamlega gift lifir lengur, það lifir heilbrigðari lífi heldur en fráskilið fólk og þeir sem eru óhamingjusamir í hjónabandi.   John M. Gottman, sálfræðingur og einn virtasti sambands og hjóna- ráðgjafi  í Bandaríkjunum segir  í þessu tilliti að vísindamenn séu ekki í vafa um þennan mismun en eru ekki vissir um af hverju þetta er svona. (1)  Samt er mikilvægt að hafa það í huga, segir Gottman að það er ekki vænlegt til árangurs að dvelja í slæmu hjónabandi gagngert fyrir börnin.  Það er engin spurning að það er slæmt að ala börn upp við skaðlegar aðstæður á heimili sem er undirokað af fjandskap milli foreldra.  Skilnaður er betri en stríðshrjáð hjónaband. (2)

Orsakir eða ekki orsakir?

Í rannsókn minni byrjaði ég að leita eftir orsökum skilnaða og í leit minni rakst ég á vefsíðu, www.divorceguide.com, bandaríska að sjálfsögðu, og þar eru teknar saman 10 helstu ástæður skilnaða í Bandaríkjunum.

Helstu orsakirnar eru framhjáhald, samskiptaörðugleikar, líkamlegt eða andlegt ofbeldi,  kynferðisleg ófullnægja, leiði,  trúarleg eða samfélagsleg höft, ólíkar uppeldishugmyndir, fíknir, ósamræmi hvað varðar forgangsröðun og væntingar.  Þar sem hér var aðeins um að ræða vefsíðu sem kannski var ekki svo traustvekjandi þá hélt ég leitinni áfram.   En eftir langa leit þá virtust flestar rannsóknir bera að sama brunni. Dæmi má nefna ástralska rannsókn frá árinu 1997 sem undirstrikar áðurnefndar niðurstöður. Niðurstöður rannsóknarinnar eru fengnar frá Australian Divorce Transitions Project, slembiúrtak á landsvísu sem náði til 650 fráskilinna Ástrala.  Rannsókn þessi var framkvæmd af Australian Institute of Family Studies seint á árinu 1997. (3)

Af 650 manna úrtaki, sem öll fengu spurninguna hvað þau teldu vera helstu ástæðu þess að þau hefðu skilið við maka sinn, svöruðu 27,3%  „samskiptaörðugleikar“, 21% sögðu ástæðuna vera að þau hefðu fjarlægst tilfinningalega, 20,1% sögðu að þau sjálf eða fyrrverandi maki hefði haldið framhjá og 7,4% vísuðu til alkóhól- eða vímuefnaneyslu.  Aðrir þættir voru veigaminni en það má skjóta því inn að 5,5% sögðu ofbeldi á sér eða börnum á heimilinu vera helsta orsakavaldinn. (4)

Flestir sem hafa gengið í gegnum skilnað, kannast við eitthvað af ofangreindu og eflaust finna margir ástæður hér fyrir skilnaði sínum.  En hér er, að mínu mati, alls ekki verið að horfast í augu við vandamálið sjálft, heldur er hér verið að tala um afleiðingar en ekki orsakir.

Meðvirkni grunnorsök flestra skilnaða

Hvað gerir það að verkum að einstaklingur heldur framhjá?  Af hverju eigum við í samskiptaörðugleikum, deilum, valdabaráttu,  erum ósveigjanleg í rökræðum, verðum sár eða förum í vörn við ákveðnar athugasemdir o.s.frv.  Af hverju getum við ekki leyft hvort öðru að vera eins og við erum?   Hvers vegna fer fólk inn í samband með það í huga að breyta hinum en ekki að læra að lifa með þeim eða, af hverju eyðum við lífinu með einstaklingi sem hefur bresti sem við getum ekki sætt okkur við í raun?  Af hverju göngum við ekki út úr alkóhólísku sambandi eða ofbeldissambandi strax í upphafi?  Af hverju sættum við okkur við minna en þá mestu hamingju sem við getum upplifað?
Allt hér að ofan tengist meðvirkni á einn eða annan hátt að mínu mati, og tel ég það vera grunn orsök flestra skilnaða.  Ástæðurnar eru margar og hér er aðeins snert á nokkrum þeirra.  Tilfinningaleg vanþekking, lágt sjálfsmat og þroskaleysi veldur því að við getum ekki verið maka okkar trú.   Lágt sjálfsmat og óöryggi kalla á undirgefni, deilur eða valdabaráttu í samböndum.   Það að hafa þörfina fyrir að breyta öðrum, sýnir eigin vanmáttarkennd, lágt sjálfsmat og óöryggi.  Að vera stjórnsöm og ósveigjanleg getur vísað til skorts á sjálfsþekkingu, tilfinningalegu læsi og heiðarlegri sjálfsskoðun.  Ef við þekkjum ekki okkur sjálf og okkar tilfinningar þá erum við í vanda.  Hvernig á makinn að vita hver við erum ef við vitum það ekki sjálf?

Örstutt um meðvirkni

Meðvirkni byrjar að mótast æsku, hún verður til við langvarandi vanvirkar aðstæður á heimili, aðstæður sem skekkja sjálfið okkar, þ.e.a.s. við höfum ekki fullt frelsi til að vera við sjálf því við verðum að aðlaga okkur að aðstæðum heimilisins, breytum okkur til að minnka sársaukann okkar.  Skekkjan sem verður til í æsku, fylgir okkur í lífinu og er ástæða þess að við erum ekki fullnægð á fullorðinsárum í samböndunum okkar.   Ef við erum ekki heil þá erum við ekki heil í sambandinu og sambandið okkar verður ekki heilt.

Dæmi:   Ég var skammaður sem barn fyrir að gera barnalega hluti sem voru mér eðlislægir, því ég var barn.  Ítrekaðar skammir gerðu það að verkum að ég lærði að það sem “ég vildi” var ekki rétt heldur það sem móðir mín vildi og sagði.  Þetta atferli fjarlægði mig því að þekkja sjálfan mig, mínar þarfir og þrár, en þess í stað lærði ég að gera öðrum til hæfis og óttast hvað örðum fannst.

Í samskiptum á fullorðinsárum var ég mjög ósjálfstæður, sjálfstraustið var nær ekkert, átti erfitt með að taka ákvarðanir, ég vissi ekki hvað ég vildi og sóttist ekki eftir að fá þörfum mínum fullnægt.  Mér leið hörmulega en hafði ekki getuna til að komast í burtu því ég hafði alltaf treyst á aðra, sjaldnast á sjálfan mig.  Ótti við álit annarra, takmörkuð sjálfsþekking,  skert þekking á eigin tilfinningum, stjórnsemi, lágt sjálfsálit,  skapsveiflur, ofur viðkvæmni, tilfinningaþurrð, það að nærast á athygli annarra eru aðeins nokkur einkenni meðvirkni sem einstaklingar taka með sér úr uppeldi inn í samskipti og sambönd.

Ég geri betur í næsta lífi

Ef þú átt í erfiðleikum með samskipti, sambönd eða að upplifa gleði eða hamingju í daglegu lífi, hikaðu þá ekki við að leita þér aðstoðar því að fortíðin er ekki þess virði að hún fái eyðileggja fyrir okkur nútíðina.   Í starfi mínu heyri ég mjög oft fólk sjá eftir því að hafa ekki tekist á við vandann fyrr en allt var komið í óefni eða jafnvel það hefur eytt stórum hluta lífsins í vanvirkum aðstæðum og ekki komist út fyrr en á fullorðinsaldri.   Því finnst mér við hæfi að vísa í útdrátt úr afskaplega merkilegri bók sem byggist á rannsókn áströlsku hjúkrunarkonunnar Bronnie Were, bókin heitir “The Top Five Regrets of the Dying”,  og í henni er samantekt á því hvað deyjandi fólk sér mest eftir við enda lífdaga sinna.

Efst á lista er, “Ég vildi að ég hefði haft hugrekki til að lifa lífinu eins og ég sjálf/ur vildi gera það, ekki eins og aðrir ætluðust til.”   Númer tvö á listanum er eftirsjá eftir að hafa unnið of mikið og því ekki sinnt fjölskyldunni nógu mikið.  Í þriðja sæti sáu skjólstæðingar hennar eftir því að hafa ekki haft meira hugrekki til að tjá tilfinningar sínar, þ.e.a.s. að þau höfðu bælt tilfinningar sínar til að halda friðinn, og fyrir vikið gerðu þau sér meðalmennskuna að góðu.   Í fjórða sæti var söknuður yfir því að hafa ekki sinnt vinasamböndum betur.   Og í fimmta sæti segir “Ég vildi óska þess að ég hefði leyft mér að vera hamingjusamari.”  Margir átta sig á dánarbeðinum að þeir hafi fyrir löngu fest í viðjum vanans og látið þar við sitja.  Þá sé of seint að skilja að hamingjan er val, segir Were.

Ætlar þú að njóta lífsins núna eða vilt þú búa við eftirsjá þegar líf þitt er að leiðarlokum komið?  Eftir hverju ertu að bíða?

Kjartan Pálmason
Ráðgjafi, Cand. theol.
Lausnin sjálfsræktarsamtök
www.lausnin.is

(1)  Gottman, M. John 1999, s. 4.
(2)  Gottman, M. John 1999, s. 6.
(3)  Aifs.gov.au  1999.   Australian Institute of family studies.
(4)  Aifs.gov.au  1999.   Table 3.

Skilnaður – Skilnaður frá sjálfum sér?

Skilnaður frá sjálfum sér?

Eftirfarandi efni  er stolið og stælt, bland í poka úr eigin smiðju og af netinu. – 
Ákvörðun um skilnað er yfirleitt tekin eftir einhvern aðdraganda, þó að annar aðilinn komi alveg af fjöllum og bregði mjög. – Stundum hefur sá aðdragandi staðið yfir í mörg ár.  Þannig að það er bara sá/sú sem setur niður fótinn og segir;  “Ég vil ekki meira svona”  sá aðili sem yrðir skilnaðinn,  þó að hann sé í raun löngu kominn í loftið.

Stundum er það auðvitað þannig að annar eða báðir aðilar hafa vitað að það er ekki “allt í lagi” en hafa horft fram hjá því, kannski með þá von í brjósti að það reddaðist af sjálfu sér.

Hvað er fólk að segja þegar það er fjarlægt og forðast nánd við hvert annað,  eru það ekki fyrstu skrefin í átt að skilnaði? –  Þessi fjarlægð getur verið frá maka, en líka flótti frá sjálfum sér. – Að vera “absent” – eða fjarstödd andlega, og stundum oft í líkama líka.

Það má kannski segja að upphafið að skilnaði sé skilnaður frá sjálfum sér.

Sjálfsvirðing, sjálfstraust, sjálsfsmeðvitund og að elska sjálfa/n sig sé undirstaða þess að geta virt, treyst og elskað aðra manneskju? 

Tilfinning sem er oft ríkjandi hvað skilnað varðar er höfnun.  Fólk upplifir höfnun þegar makinn hefur haldið framhjá. – Fólk upplifir líka höfnun þegar maki þess forðast nánd, forðast samveru og forðast kynlíf. –  Höfnunin getur komið fram á svo marga vegu. –  Hver byrjar að hafna skiptir ekki öllu máli, eða það að finna sökudólg yfir höfuð. –

Það er ekki bara ein lausn við hjónabandserfiðleikum.  Ekki sú eina að skilja.  Lausnin getur verið að leita sér hjálpar, fara (þá bæði) að vinna í sér,  skilja hvað gerðist, líka hjá okkur, því við getum ekki alltaf bara horft á hinn aðilann.  Best tel ég að bæði vinni í sér og saman líka.

KARLAR OG SKILNAÐUR

Samfélagið hefur kennt körlum að vera “harðir” fela tilfinningar sínar, gráta ekki. –  Karlmenn verða þar af leiðandi oft tilfinningalega lokaðir og eiga erfitt með að tjá sig, því  þeir telja e.t.v. að karlmennsku sinni vegið?  Ég set hér spurningamerki, því ég er ekki karlmaður.

Karlmenn, jafnt og konur eru tilfinningaverur.  Litli strákurinn hefur jafn mikla þörf og litla stelpan, en fljótlega er farið að gera greinarmun, – enn í dag og það tekur tíma að afvenja samfélagið af þessu.  “Gráttu ekki eins og stelpa” – “Harkaðu af þér og vertu karlmaður” ..  þetta liggur enn í loftinu og er í undirmeðvitundinni. –

Það þykir “flottara” að karl verði reiður en að hann verði dapur eða gráti.

Hvað ef að karlmaður er yfirgefinn af eiginkonu, hafnað og hann skilinn eftir í lausu lofti? –  Hvaða tilfinningar sýnir hann?  – Hann fer auðvitað í gegnum allan tilfinningaskalann eins og kona, en reiði gæti orðið hans birtingarmynd, því það er svona “skást” út á við. –

Við lærum margt í bernsku og við berum þær tilfinningar með okkur inn í fullorðinsárin.  Ef að drengur hefur fengið höfnun í bernsku, og aldrei tjáð sig um hana, eða ef að hann situr uppi með einhver óyrt sár eða vanlíðan, þá ýtir það undir enn meiri vanlíðan við skilnað. –  Viðbrögðin geta koma fram eins og hjá barni sem fær ekki það sem því finnst eiga skilið. – Með reiði. –

Hverjar eru afleiðingar af innibyrgðum tilfinningum? –  Þær geta leitað í farveg fíknar, ofbeldis, einangrunar – allt farvegur sem er til þess gerður að komast af.  Við erum “survivors”  og leitum leiða til að þola það óþolanlega.  Ef við tjáum okkur ekki um það, um hvernig okkur líður, verður það óhjákvæmilegt að leita í einhvern af áðurnefndum farvegum.

Ein af leiðunum okkar getur verið að afneita tilfinningunum og/eða deila þeim ekki með neinum, hvorki fjölskyldu, vinum né utanaðkomandi,  vinna ekki í sjálfum sér,  heldur að fara í örvæntingu að leita að næsta maka, og það að fara í því ástandi inn í samband er aldrei góðs viti. –  Heilunin hefur ekki átt sér stað og má segja að það sé eins og að hella ekki óhreina vatninu úr skúringarfötunni áður en nýtt vatn er sett í það. –

Þessi leið er ekki einungis leið karlmanna, konur nota hana oft, en mun sjaldnar en karlmenn. –  Samfélagsmenningin er að breytast,  en enn er eins og áður sagði minna umburðalyndi í garð karlmanna, þannig að heilbrigð viðbrögð eins og að sýna tilfinningar eða fara í gegnum sorgarferli er síður viðurkennt þegar karlmaður á í hlut.  Það að viðurkenna ótta, vanmátt, depurð, sorg og kvíða. – En allt er þetta hluti eðlilegs sorgarferlis eftir skilnað.

Í stað þess að sýna þessa hlið, sýnir þá karlmaðurinn aðeins merki reiði – sérstaklega í návist annarra,  en í raun er það eina tjáningarformið sem hann leyfir sér að nota, þegar hann kannski í raun langar bara að viðurkenna hversu sorgmæddur hann er.

REIÐIN

Depurð er yfirleitt túlkuð sem veikleikamerki og karlmenn vilja helst ekki vera merktir sem veikir. Það er því skárra að vera reiður!  Öskra eins og sært ljón? –  Reiðin sýnir vald og getur valdið því að menn  (og konur reyndar) segja særandi hluti við maka sem þeir upplifa höfnun frá.

Að missa maka sinn við skilnað getur orðið til þess að upplifa stjórnleysi á eigin lífi.  Þvinguð breyting hefur átt sér stað. “Þetta átti að fara allt öðruvísi” – Reiðin getur verið tæki til að öðlast valdið á ný, að refsa með orðum og gjörðum, persónunni sem virðist hafa valdið sársaukanum.

Það er auðveldara.  “Hún/hann hélt framhjá mér, var alltaf að drekka,  var ferlega löt/latur,  var fjarlæg/ur og sinnti mér ekki.” –

Önnur aðferð er að gera lítið úr fyrrverandi maka, opinbera viðkvæm atriði sem voru á milli ykkar tveggja. Það er gert lítið úr hinum gagnvart vinum, fjölskyldu og samfélagi. –  Í raun bara til að réttlæta sjálfa/n sig og skilnaðinn.  – En fólk þarf líka að hætta að leggjast svona þungt eftir því að vita “Af hverju skilduð þið?” .. – “Segðu mér nú alla sorasöguna”..

Það eru takmörk fyrir því hvað utanaðkomandi þurfa að vita mikið – og stundum kemur þeim það ekkert við. –

Of mikil reiði og óyrtar tilfinningar hafa þekktar afleiðingar, hvort sem er í hjónabandi eða eftir. –

Ofbeldi er ein útrásaraðferðin, – ef að menn geta ekki tjáð sig eðlilega þá leiðast þeir oft út í ofbeldi.  Ekki endilega með því að berja makann, heldur með að sýna vald sitt og “styrk” með því að skemma hluti, henda niður fatahenginu, brjóta, bramla og skella hurðum.  Þar ofan á kemur hið munnlega ofbeldi – ljótu orðin látin fjúka.

HINDRUN BATA

Reiði, gremja og afneitun hindrar eðlilega framvindu batans eftir skilnað og hindra fólk í að ná fótfestu í nýjum samböndum, þegar að gömlu sárin eru tekin með í hið nýja.

Með (reiði) fókusinn fastan á fyrrverandi er vonlaust að vera í sambandi með núverandi.

HVAÐ GERÐIST?

Það þarf að skilja hvað gerðist, hvað misheppnaðist í fyrra sambandi, hver voru mín mistök og hver voru makans? –   Það þarf að læra af fyrra sambandi til að það næsta verði betra.  Hvernig er hægt að vera betri maki í framtíðinn?   Ef að tilfinningarnar voru ást í byrjun,  hvað gerðist og hvenær fór það að gerast? –  Af hverju valdi hann hana og hvers vegna valdi hann að vera áfram með henni?

Sjálfþekking er grundvallandi til þess að næsta samband fari ekki á sama veg. Að afneita hinum “ógnvænlegu tilfinningum eins og ótta, kvíða, depurð o.s.frv. mun bara lengja bata- og  heilunarferlið.

BÖRN OG SKILNAÐUR

Fólk frestar því oft að skilja vegna barnanna, en stundum er betra fyrir börnin að búa með friðsælum foreldrum til skiptis en að búa inni á heimili fyllt spennu milli foreldra, eða jafnvel ofbeldi.

Það er mikilvægt að foreldrar hafi hag barnanna sinna í fyrirrúmi við skilnað. Börn hafa rétt til beggja foreldra, og foreldrar þurfa virkilega að varast það að nota ekki börnin sem vopn í baráttunni við fv. maka. Það er allt of algengt og það er allt of eigingjarnt.  Það þarf líka að varast að rugla ekki nýrri manneskju inn í líf þeirra of snemma.  Það er farsælast fyrir börnin að foreldrar geti umgengist án hnjóðsyrða eða að tala illa um hvort annað í eyru barnanna.  Fókusinn verður að vera á farsæld barnanna og mikilvægt að engin/n lofi upp í ermina á sér hvað börnin varðar. –

KVÍÐI  

Stressið sem við upplifum í gegnum skilnað skilur marga eftir með kvíðahnút.  Það er svo margt sem breytist og margir kvíðavekjandi hvatar.  Fyrir þau sem eru fyrir kvíðin, getur skilnaður verið nær óbærilega kvíðavekjandi.  Kvíðinn getur komið fram í óróleika, stöðugum áhyggjum og ótta. Það er ekki óalgengt að festast í smáatriðum varðandi framkvæmdaatriði í skilnaði, við vandamál sambandsins og með hugann við hvað hinn aðilinn er að gera.  Það getr truflað einbeitingu, svefn og dagleg störf.  Margir grennast mjög hratt í þessu ástandi og ekki sjaldgæft að sjá fólk missa mörg kíló við skilnað, en þetta vigtartap er yfirleitt hratt og mjög slæmt heilsufarslega séð.

SORG

Sorgarferlið er mjög áreiðanlegt en aldrei auðvelt. Það er sorgin sem menn eru að forðast eða flýja þegar þeir leita í drykkju, lyf, vinnu, tölvur eða hvað sem þeir nota.  Þetta eru engar “short cuts” – skemmri leiðir fyrir sorg.  Ef við reynum að flýja þá framlengjum við eymdina. –  Eina leiðin er að fara í gegnum hana. – “Go through it”..

Doði er oft fyrsta stigið, þar sem við trúum ekki hvað er að gerast eða afneitum því. –  Sumir verða hissa og finnst þeir ekki finna neitt í byrjun, en slíkt breytist síðan í sjokk fyrr en varir.

Annað stig sorgar er þegar tilfinningarnar ná að koma upp á yfirborðið.  Fólk upplifir panik, þunglyndi, ofsakvíða eða reiði eða bland af þessum tilfinningum.  Á þessu stigi geta karlar fundið fyrir meiri erfiðleikum vegna þess að þeir eiga oft erfiðara með að tjá upplifun sína eða að opna sig fyrir öðrum.   Þeir gætu jafnvel forðast stuðning þegar þeir þurfa mest á honum að halda, til að láta líta út eins og allt sé í lagi og þeir með fulla stjórn.  Grátur, martraðir og kvíði eru oft einkenni annars stigs.

Þriðja stigið leiðir oft til að fólk dregur sig í hlé.  Það getur verið erfitt að vera í kringum fólk á þessu stigi, og á þessu stigi á ekki að þvinga sér upp á fólk í sorg, að vera með sjálfu sér er líka gott – og svefninn og einveran getur orðið til þess að gefa hinum syrgjandi næði til að jafna sig.  Að fara í mikla endurskoðun er eðlilegt viðbragð á þessu stigi, vegna þess að við þurfum að skilja hvað gerðist og skilja hinar dramatísku breytingar sem hafa orðið í lífinu.

Á fjórða stigi þarf að fara að velja hvort við ætlum að halda áfram eða staðna, horfa aftur eða fram.  Endurbyggja líf sitt.  Það þýðir að sættast við aðstæður, lifa með þeim og læra af þeim.  Það þarf að prófa nýja hluti, hitta nýtt fólk og upplifa nýjar aðstæður. –  Fara svolítið út fyrir þægindahringinn til að gera sér grein fyrir því hvað leiðir til hamingju og vonar við að halda áfram lífsgöngunni.

ENDURNÝJUN

Getur eitthvað gott komið út úr skilnaði? …

Fátt er svo með öllu illt að ei boði gott, og margir ná að fóta sig ágætlega í nýja lífinu. Kannanir sýna (ég er ekki með tilvitnun í þær) að mörgum líður betur eftir skilnað að einhverjum tíma liðnum, jafnvel þó það hafi ekki verið þeirra val að skilja.  Þeir sem vinna í sér, upplifa e.t.v. meiri lífsfyllingu, hamingju og finna meira ríkidæmi innra með sér.

Þú getur spurt:

Hvers sakna ég úr fyrra sambandi? –

Hvaða þættir eru það sem ég þarf að forðast með nýjum maka? –

Hvaða drauma get ég nú látið mig dreyma, sem voru stöðvaðir af fyrri maka? –

Öll sambönd og samskipti  eru lærdómur, áskorunin er að láta þessi sambönd verða til þess að vaxa og bæta framtíðina.

Samskiptin sem eru undirstaðan að öllum öðrum samskiptum eru þó samskiptin við okkur sjálf.

Við þurfum öll að læra að skilja ekki við okkur sjálf, heldur er upphafið að trúlofast sjálfum okkur, læra að elska, treysta og virða okkur sjálf! –

Skilnaður – Að skilja í kærleika eða færast SAMAN dýpra inn í núið

Eftirfarandi er (gróf)  þýðing mín á pistli sem ég held reyndar að sé tekinn beint frá Eckhart Tolle. –  Þarna er m.a. farið inn á lausnina frá meðvirkni, hvorki meira né minna,  og þarna eru líka afskaplega mikilvæg skilaboð til okkar allra. –  Að lifa í meðvitund, að veita sjálfum okkur athygli og hugsunum okkar. –  Skynja ástina innra með okkur, gleðina og friðinn og láta hvorki utanaðkomandi né innri hávaða trufla það. –

En hér er pistillinn. –

Ástar/haturssambönd

Án þess að komast og þangað til að þú kemst í meðvitað viðveruástand,  verða öll sambönd, og sérstaklega náin sambönd, verulega gölluð og að lokum vanvirk.  Þau geta litið út fyrir að vera fullkomin um tíma, eins og þegar þú ert “ástfangin/n”  en óhjákvæmilega verður þessi sýnilega fullkomnun trufluð þegar að rifrildi, árekstrar, óánægja og andlegt eða jafnvel líkamlegt ofbeldi fer að eiga sér stað í auknum mæli.

Það virðist vera svo að flest “ástarsambönd”  verði ástar/haturssambönd fyrr en varir.  Ástin getur þá snúist í alvarlega árás,  upplifun fjarlægðar eða algjöra uppgjöf á ástúð  eins og að slökkt sé á rofa.  Þetta er talið eðlilegt.

Í samböndum upplifum við bæði “ást” og andhverfu ástar – árás, tilfinningaofbeldi o.s.frv. – þá er líklegt að við séum að rugla saman egó sambandi og þörfinni fyrir að líma/festa sig við einhvern við ást. –  Þú getur ekki elskað maka þinn eina stundina og svo ráðist á hann hina.  Sönn ást hefur enga aðra hlið. –  Ef “ást” þín hefur andstæðu  þá er hún ekki ást heldur sterk þörf sjálfsins fyrir heilli og dýpri skilning á sjálfinu, þörf sem hin persónan mætir tímabundið.   Það er það sem kemur í staðinn fyrir hjálpræði sjálfsins og í stuttan tíma upplifum við það sem hjálpræði. –

En það kemur að því að maki þinn hegðar sér á þann hátt að hann mætir ekki væntingum þínum eða þörfum,  eða réttara sagt væntingum sjálfsins.  Tilfinningar ótta, sársauka og skorts sem eru inngrónar í meðvitund sjálfsins,  en höfðu verið bældar í “´ástarsambandinu”  koma aftur upp á yfirborðið. –

Alveg eins og í öllum fíknum,  ertu hátt uppi þegar fíkniefnið er til staðar, en óhjákvæmilega kemur sá tími að lyfið virkar ekki lengur fyrir þig.

Þegar þessar sársaukafullu tilfinningar koma aftur,  finnur þú jafnvel enn sterkar fyrir þeim en áður,  og það sem verra er,  að þú sérð núna maka þinn sem orsök þessara tilfinninga.  Það þýðir að þú sendir þær út og ræðst á hann með öllu því ofbeldi sem sársauki þinn veldur þér.

Þessi sársauki getur kveikt upp sársauka maka þíns, og hann ræðst á þig til baka.  Á þessu stigi er sjálfið meðvitað að vona að þessi árás eða þessar tilraunir við stjórnun verði nægileg refsing til að minnka áhuga maka þíns á því að breyta hegðun sinni, svo að sjálfið geti notað árásirnar aftur til að dylja eða bæla sársauka þinn. –

Allar fíknir kvikna vegna ómeðvitaðrar afneitunar á að horfast í augu við og fara í gegnum eigin sársauka.  Allar fíknir byrja með sársauka og enda með sársauka.  Hverju sem þú ert háð/ur – alkóhóli – mat – löglegum eða ólöglegum fíkniefnum eða manneskju – ertu að nota eitthvað eða einhvern til að hylja sársauka þinn. –

Þess vegna – þegar bleika skýið er farið framhjá –  er svona mikil óhamingja,  svo mikill sársauki í nánum samböndum. –   Þau draga fram sársauka og óhamingju sem er fyrir í þér.  Allar fíknir gera það.  Allar fíknir ná stað þar sem þær virka ekki fyrir þig lengur,  og þá finnur þú enn meiri sársauka.

Þetta er ein af ástæðum þess að flestir eru að reyna að sleppa frá núinu – frá stundinni sem er núna – og eru að leita að hjálpræði í framtíðinni. –  Hið fyrsta sem það gæti mætt ef fókus athygli þeirra er settur á Núið er þeirra eigin sársauki og það er það sem það óttast.  Ef það aðeins vissi hversu auðvelt það er að ná mættinum í Núinu,  mættinum af viðverunni sem eyðir fortíðinni og sársauka hennar,  raunveruleikinn sem eyðir blekkingunni. –

Ef við aðeins vissum hversu nálægt við erum okkar eigin raunveruleika, hversu nálægt Guði. –

Að forðast sambönd er tilraun til að að forðast sársauka og er því ekki svarið. – Sársaukinn er þarna hvort sem er.  Þrjú misheppnuð sambönd á jafn mörgum árum eru líklegri til að þvinga þig inn í að vakna til meðvitundar heldur en þrjú ár á eyðieyju eða lokuð inni í herberginu þínu.  En þú gætir fært ákafa viðveru inn í einmanaleika þinn,  sem gæti líka virkað. –

Frá þarfasambandi  til upplýsts sambands. 

Hvort sem við búum ein eða með maka,  er lykilinn að vera meðvituð og auka enn á vitund okkar með því að beina athyglinni enn dýpra í Núið.

Til þess að ástin blómstri,  þarf ljós tilvistar þinnar að vera nógu sterkt til að þú látir ekki hugsuðinn í þér eða sársaukalíkama þinn taka yfir og og ruglir þeim ekki saman við hver þú ert.

Að þekkja  sjálfa/n sig sem Veruna á bak við hugsuðinn, kyrrðina á bak við hinn andlega hávaða,  ástina og gleðina undir sársaukanum,  er hjálpræðið, heilunin, upplýsingin.

Að aftengja sig sársaukalíkamanum er að færa meðvitund inn í sársaukann og með því stökkbreyta honum.  Að aftengja sig hugsun er að vera hinn þögli áhorfandi hugsana þinna og hegðunar, sérstaklega hins endurtekna mynsturs huga þíns og hlutverkanna sem sjálfið leikur.

Ef þú hættir að bæta á “selfness”  missir hugurinn þennan áráttueiginleika,  sem er í grunninn áráttan til að DÆMA, og um leið að afneita því sem er,  sem skapar átök, drama og nýjan sársauka.  Staðreyndin er sú að á þeirri stundu sem þú hættir að dæma,  með því að sættast við það sem er, hver þú ert,  ertu frjáls frá huganum.  þá hefur þú skapað rými fyrir ást, fyrir gleði og fyrir frið.

Fyrst hættir þú að dæma sjálfa/n þig, og síðan maka þinn.  Besta hvatningin til breytinga í sambandi er að samþykkja maka sinn algjörlega eins og hann er,  án þess að þurfa að dæma hann eða breyta honum á nokkurn hátt.

Það færir þig nú þegar úr viðjum egósins.  Allri hugarleikfimi og vanabindandi “límingu” við makann er þá lokið.  Það eru engin fórnarlömb og engir gerendur lengur,  engin/n ásakandi og engin/n ásökuð/ásakaður.

ÞETTA ERU LÍKA ENDALOK ALLRAR MEÐVIRKNI,  að dragast inn í ómeðvitað hegðunarmynstur annarrar persónu og þannig að ýta undir að það haldi áfram.

Þá munuð þið annað hvort skilja –  í kærleika – eða færast SAMAN dýpra inn í Núið,  inn í Verundina.  Getur þetta verið svona einfalt? –  Já það er svona einfalt.  (segir Tolle)

Ást er tilveruástand.  “State of Being” –  Ást þín er ekki fyrir utan; hún er djúpt innra með þér.  Þú getur aldrei tapað henni, og hún getur ekki yfirgefið þig.  Hún er ekki háð öðrum líkama,  einhverju ytra formi.

Í kyrrð meðvitundar þinnar,  getur þú fundið hinn formlausa og tímalausa veruleika eins og hið óyrta lif  (andann?) sem kveikir í þínu líkamlega formi.  Þú getur þá fundið fyrir þessu sama lífi djúpt innra með öllum öðrum manneskjum og öllum verum.  Þú horfir á bak við slæðu forms og aðskilnaðar.  Þetta er upplifun einingarinnar.   Þetta er ást.

Jafnvel þó að einhverjar glætur séu möguleikar, getur ástin ekki blómstrað nema þú sért endanlega laus við að skilgreina þig í gegnum hugann og að meðvitund þín verði nógu sterk til að eyða sársaukalíkamanum –  eða þú getir a.m.k. verið meðvituð/meðvitaður sem áhorfandi.  Þá getur sársaukalíkaminn ekki yfirtekið þig og með því farið að eyða ástinni.  Eða vera eyðileggjandi fyrir ástina. –

Smellið hér til að lesa Orginalinn

Og hér er tengill á Eckhart Tolle sjálfan þar sem hann les þennan texta upp úr bók sinni “The Power of Now” –

(Ath! þeir sem kannast ekki við hugtakið “sársaukalíkami”  þá er það líkaminn sem laðar að sér vonda hluti sem þú undir niðri veist að koma bara til með að auka á vansæld þína. –   Offitusjúklingur leitar í það sem fitar hann,  sá sem er að reyna að hætta að reykja fær sér sígarettu,   sá sem þarf að byggja sig upp andlega leitar eftir vandamálum og leiðindafréttum og “nærist” þannig – nærir sársaukalíkama sinn.  –   Þekkir þú einhvern sem hegðar sér svona? –

Það að koma sér úr skaðlegum aðstæðum,  getur bæði verið líkamlegt og huglægt.  Að sjálfsögðu lætur enginn bjóða sér árásir annarra eða ofbeldi, – og því er sjálfsagt að koma sér þaðan.  En meginatriði er að komast úr skaðlegum aðstæðum sjálfs sín,  þegar við erum okkar eigin verstu skaðvaldar. –   Fylgjumst með hvað við gerum,  verum okkar eigin áhorfendur,  sjáum,  viðurkennum og lærum.

En með samhug en ekki dómhörku. –

Skilnaður – Þroski og breytingar

Í námskeiðinu “Lausn eftir skilnað” hef ég flutt fyrirlestur sem ber heitið “Sorgarferli verður að þroskaferli” –  sem vísar að sjálfsögðu í þroskann sem verður í gegnum sársaukann og ekki síður sem verður við breytinguna. –

Stundum veljum við breytinguna,  en stundum er hún þvinguð upp á okkur. –

Við viljum, að sjálfsögðu, fá að velja okkar breytingar, en þannig gengur heimurinn ekki alltaf fyrir sig.  Um sumt höfum við ekkert val og þá verðum við að læra sáttina. –

Við getum ekki breytt veðrinu,  en við getum klætt okkur út í veðrið og stundum höfum við tækifæri til að færa okkur úr stað, þ.e.a,s. að fara þangað sem veðrið er öðruvísi.  Oftast er það nú frá snjóbyl og myrkri í sól og hita sem hugurinn leitar. –  En það er önnur umræða.

Segjum að við höfum ekki möguleika á að koma okkur “í líkama” burt úr veðrinu,  þá er eina leiðin að gera það andlega, eða a.m.k. breyta viðhorfi okkar til þess, og þannig upplifa sól og hita innra með okkur,  þessa sem við þráum svo mikið og hugsum til. –

Stundum verða breytingar sem við viljum ekki, þær sem eru þvingaðar upp á okkur, – líka hlutir sem við eiginlega neyðumst til að velja – eins og að velja skilnað frá maka.  Það er aldrei valið á upphafsreit sambands, a.m.k. ekki ef farið er í sambandið á réttum forsendum. –

Stundum er dembt yfir okkur breytingum, – vinnustaðurinn er seldur og við þurfum að skipta um vinnu.  Tækninýjungar hellast yfir og við þurfum að aðlagast og uppfæra okkur,  eins og þær uppfærast.  “Ný útgáfa af Firefox” – nýtt tölvukerfi o.s.frv. –  Einu sinni vann ég við bókhald og kunni bara vel á kerfið,  svo var ákveðið að taka upp nýtt kerfi og ég fylltist óöryggi og hræðslu, – “Oh, ég kunni svo vel á hitt” –  en smám saman lærði ég á nýja kerfið. –

Við getum verið farin að mastera einhvern leik hér á Facebook, en ætlum við að hanga endalaust í honum eða prófa nýjan leik og vera eins og byrjendur? –

Ég held mér að vísu frá þessum leikjum því margir eru fíknivaldandi, – held mig bara við fíknina við að tjá mig skriflega ;-) ..  – og reyndar munnlega líka –

Hvað sem er þá höfum við yfirleitt gott af breytingum en erum misvel búin til að aðlagast eða taka  á móti þeim. –  Við vitum að það er til fólk sem gengur alveg úr skaftinu við minnstu breytingar og hvað þá ef þær eru með stuttum fyrirvara.  Reyndar er það einkenni þeirra sem eru með ýmsar greiningar,  eins og ADHD sem þola illa breytingar og hvað þá illa undirbúnar eða óvæntar. – Heimurinn fer á hvolf.

Við þurfum reyndar ekkert að vera með neinar greiningar til að pirra okkur á breytingum sem eru illa undirbúnar eða við upplifum okkur í óhag.

Lífið er breytingum háð og lífið er flæði. –

Breyting er komið af “braut” – og við flæðum eftir þessari braut breytinga.  Það gerist yfirleitt hægt,  umhverfið breytist, við eldumst, fólkið í kringum okkur breytist og eldist,  sumir deyja og aðrir koma í staðinn,  eins og segir í ljóðinu Hótel Jörð. –

“Lifið er undarlegt ferðalag” –

Ef við höngum of lengi á sama punktinum, förum við oft að verða óróleg eða fer að leiðast. –

Þá þurfum við að þora að  stokka spilin og sjá hvað við fáum á hendi.  Stundum fáum við góð spil til að spila úr og stundum slæm.  Kannski hendum við því sem við fáum og tökum “mannann” –  (manninn er aukabunki í spili sem heitir Manni, ef einhver þekkir það ekki).   E.t.v. er manninn betri og e.t.v. verri.  En við sitjum uppi með að spila úr spilunum og gera það besta sem við getum úr þvi. –
Svo þegar það spil er búið fáum við aðra gjöf og spilum úr henni. -Svo virðist sem heimurinn sé að breytast hraðar og hraðar.  Heimurinn sem ég ólst upp í var miklu hægari og einfaldari að mörgu leyti.
Afþreyingar eru miklu fleiri í dag, fleiri rásir útvarps og sjónvarps og fleiri fjölmiðlar yfir höfuð.  Vegalengdir hafa styst,  firðir brúaðir og göng grafin undir sjó og gegnum fjöll. –  Mataræðið frá soðnum fiski með kartöflum og hamsa yfir í kjúkling, sætar kartöflur og hvítlaukssósu. –
Fulllt, fullt af breytingum og á ógnarhraða eiginlega. -Við getum spornað við breytingum, – en að einhverju leyti er betra að fara með flæðinu “go with the flow” – að sjálsögðu með vitund en ekki í meðvitundaleysi og að sjálfsögðu með athygli en ekki tómlæti.  Bæði í eigin garð og í garð náungans. –
Leyfum breytingunum að þroska okkur.  Breytingarnar eru skóli og flest erum við að fara í gegnum margar háskólagráður í þessum lífsins skóla á okkar lífstíð,  með það sem að hendi ber. -Við getum ekki stungið höfðinu í sandinn og sagt að heimurinn sé ekki að breytast, – sem betur fer er mikil vitundarvakning í gangi, – kannski vegna þess að margir vondir hlutir hafa ýtt okkur til að hugsa okkar gang.  Hafa ýtt við þroskaferli heimsins til að fara að sýna meiri samhug og vináttu í garð hvers annars,  í stað samkeppni og dómhörku.
Við getum ekki veitt hinu óumbreytanlega viðnám,  það skapar aðeins spennu í okkur sjálfum. –  Viðnám við veðri og viðnám við því sem er skapar vandræði. –
“Accept what is” segir Tolle og það er það sem hann meinar.   En um leið og við samþykkjum það sem er,  höfum við valið um viðhorf.
Ég heyrði góða dæmisögu í gær,  um val- eða ákvörðunarkvíða.
Maður var staddur á veitingahúsi,  það var svo margt á matseðlinum sem hann langaði í að hann gat ekki valið.  Hann ákvað því að velja ekki neitt. –   Hann gæti verið að missa af góðum fiski dagsins ef hann veldi Tortillurnar,  eða missa af kjúklingi í Pestó ef hann veldi humarpizzuna. –   Hvað ef að það sem hann veldi væri ekki svo gott? –
Ef þessi maður veldi aldrei neitt af matseðli vegna þess að hann óttaðist að hann væri  a) að missa af öðru betra  eða b) veldi vondan rétt,  myndi hann auðvitað deyja úr hungri, –  gefandi okkur að hans eina uppspretta fæðu væri af þessum matseðli (en það má í dæmisögum). –
Það sama á við um lífið okkar.  Ef við veljum ekki,  eða veljum að velja ekki,  hvað sitjum við uppi með? –  Leiðindi?  Andlega vannæringu? –
Stundum erum við komin á það stig að vera illa vannærð andlega og þá tekur heimurinn sig til og velur fyrir okkur. – Við völdum ekki,  en heimurinn velur að bjóða okkur upp á eitthvað.   Kannski er það uppáhaldsrétturinn en svo getur það verið það sem við hefðum ALDREI valið sjálf,  einhver matur sem okkur finnst ferlega vondur,  jafnvel ógeðisdrykkur.
Við erum ekki alltaf tilbún að taka á móti því sem að höndum ber,  hvað þá ef það eru ein vandræðin ofan á önnur? –
Þegar við förum í “Why me Lord?” gírinn.  –
Ættum við að spyrja  “Why not somebody else Lord?” –  slepptu mér.
Við spyrjum eflaust sjaldnar  “Why me Lord – why am I so lucky to be born where there is plenty of food, clean water, health care etc… ” –
Af hverju spyrjum við ekki að því? –
Eric Hoffer  skrifaði,
“Á tímum breytinga eru það þeir sem læra sem erfa jörðina.”
Sársaukinn er svaðalegur kennari,  það þekkja þeir sem hafa þurft að fara í gegnum hann,  og það þurfum við flest. –
Við vitum líka að það fólk sem hefur gengið í gegnum hvað mest – sem hefur ekki flúið sársaukann,  ekki flúið “musteri viskunnar” ..
Musteri viskunnar er gífurleg blanda sorgar og gleði og meira að segja ótta.  Þau hugrökku ganga inn í óttann,  jafnvel þó þau séu hrædd,  hann varir þá skemur  því að það sem við óttumst kemur þá í ljós,  og þegar það er komið í ljós verður það ekki eins óttalegt  (því það er komið í ljós). –
Að sama skapi er eina aðferðafræðin að eiga við sorg að ganga í gegnum hana,  ganga í gegnum höfnunardyrnar, reiðidyrnar,  pirringsdyrnar, einmanaleikadyrnar  og hvað sem þær heita,  því að einnig á bak við þær dyr er léttara andrúmsloft. –
Ef við veljum að ganga ekki í gegnum þær,  stöndum við fyrir utan en sitjum uppi með allan pakkann, –  við komumst ekki yfir tilfinningarnar öðru vísi en að fara í gegnum þær og leyfa þeim að koma. –
Við getum deyft þær og við getum flúið þær.
Flóttaleiðirnar eru margar og við köllum þær oft fíknir. –
Fíknir eru til að forðast það að horfast í augu við okkur sjálf,  að upplifa okkur sjálf og finna til. –  Fíkn í mat, vinnu, kynlíf, sjónvarp, tölvu eða hvað sem er. –
“Súkkulaði er hollt í hófi” – var fyrirsögn sem nýlega var í blöðunum.
Margir lásu bara:  “Súkkulaði er hollt” –   og mig minnir að rauðvínsglasið eina sem átti að drekka á hverjum degi hafi fengið svipaða meðferð.
Flóttaleiðin verður því –  “Rauðvín er hollt”  – “Súkkulaði er hollt” … en sama hvað er,  það er allt gott í hófi ( undantekningin er auðvitað eitur, eða það sem er eins og eitur fyrir líkama okkar hvers og eins).    Ef við getum ekki umgengist það í hófi þurfum við að skoða hvað er að í lífi okkar,  hvaða tilfinningadyr við erum að forðast. –

Kannski það að svara ekki eigin þörfum, löngunum? – Kannski það að hafa ekki hugrekkið eða þorið að lifa ástríðu sína.  Skrifa bókina? – Stofna sitt eigið? – eða bara hugrekkið við að segja skoðun sína upphátt?

Hugrekkið við að leyfa sér að skína og lifa af heilu hjarta? –

,,Vísa mér veg þinn Drottinn, að ég gangi í sannleika þínum, gef mér heilt hjarta …… ”   Sl. 86:11

Það tók Brené Brown rannsóknarprófessor mörg ár og mikla menntun,  viðtöl við tugi ef ekki hundruði manna og kvenna til að komast að því að þeir sem lifðu heilbrigðustu lífi í sátt og samlyndi við sjálfa sig væru það sem hún kallar “The Whole hearted People” – Fólk sem lifir af heilu hjarta. –

—-

Stundum sitjum við uppi með upplifunina af tómarúmi, – þegar við veljum ekkert af matseðlinum sem lífið hefur að bjóða upp á.  Eða við þorum ekki að þiggja það sem er í boði.-

Þá teygjum við okkur oft í flöskuna, matinn, annað fólk eða hvað sem það er sem við verðum háð til að fylla í tómið,  sem þó aldrei fyllist, því það er ekki það sem gefur okkur þá lífsfyllingu sem við leitumst eftir. –

Fyrst þurfum við að fylla “tómið” sem ekki er tómt að vísu – en það eru “gleðifréttirnar” – af okkar eigin gleði, ást og friði. –  Þá erum við tilbúin í hvað sem er, og að mæta hverju og hverjum sem er. –

Við getum séð ljósið núna, ef við opnum fyrir það. – Fyllum okkur svo af því og leyfum því að skína innra með okkur þannig að við finnum fyrir því sem er nú þegar innra með okkur; rými sem er fullt af friði, ást og gleði. –
Þannig förum við meðvituð í gegnum lífið – þannig erum við vakandi. –

Ekki standa í skugga annarra þegar það er þitt eigið ljós sem lýsir þér.  Ekki gera annað fólk að þínum æðra mætti og skyggja þannig á þinn æðri mátt. –

Gefðu þér tækifæri á að skína.